Fyrirtækjastefnumót á Íslensku sjávarútvegssýningunni – IceFish 2024

Íslenska sjávarútvegs- og fiskeldissýningin IceFish 2024 verður haldin með pomp og prakt hér á landi dagana 18.-20. september. Þetta er í 14. sinn sem sjávarútvegssýningin er haldin hér á landi. Á sýningunni má meðal annars sjá nýjustu tæki, búnað og þjónustu sem sjávarútveginum býðst, allt frá fiskileit, veiði, vinnslu og pökkun, til markaðssetningar og dreifingar fullunnar vöru. 

Fyrirtækjastefnumót verður í boði á sýningunni en þau hafa notið vinsælda á undanförnum sýningum og það er von okkar að árangurinn verið áfram góður. Þátttakendur hafa myndað ný og öflug viðskiptatengsl og kannað ný markaðstækifæri.  Á síðustu sýningum hafa að meðaltali yfir 90 þátttakendur frá 24 löndum tekið þátt á yfir hundrað fundum.

Enterprise Europe Network stendur fyrir þessum viðburði innan IceFish-sýningarinnar og er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Fyrirtækjastefnumótið fer fram fimmtudaginn 19. september í sýningarhöll 2, í Smáranum í Kópavogi. Nauðsynlegt er að skrá sig á viðburðinn. Skráning og frekari upplýsingar eru á ensku á vefsíðu fyrirtækjastefnumótsins: Matchmaking at IceFish 2024

Hvers vegna að taka þátt?
Fyrirtækjastefnumót er einstakt tækifæri til að styrkja tengslanetið þvert á landamæri og kynnast hugsanlegum viðskiptaaðilum. Ávinningur af þátttöku er:

  • Aukinn sýnileiki þíns fyrirtækis
  • Aukið aðgengi að fjölda fyrirtækja og hagsmunaðilum
  • Markvissir og fyrirfram skipulagðir 20 mínútna fundir með hagsmunaaðilum


Fyrir hverja er þjónustan?

Fyrirtækjastefnumótið er sniðið að þörfum fyrirtækja, klasahópa, alþjóðlegra leiðtoga og hagsmunaaðila á sviði rannsókna og nýsköpunar í sjávarútvegi, þar á meðal útgerðum, fiskeldi, fiskvinnslu, markaðssetningu- og dreifingu, sjóflutningum og úthafssiglingum, og fjölmörgum öðrum.

Fyrirtækjastefnumótið er skipulagt af Enterprise Europe Network á Íslandi, starfrækt hjá Rannsóknamiðstöð Íslands-Rannís, í samstarfi við Íslensku sjávarútvegs- og fiskeldissýninguna.