Oft þarf að bregðast skjótt við spennandi samstarfsmöguleikum þar sem góðar hugmyndir kvikna, þá er sótt um Evrópustyrk í samstarfi við aðra til að hugmyndin verði að veruleika. Svo kemur að því að bíða þolinmóð eftir svari við styrkumsókninni. Með íslenska fyrirtækið Zymetech við stjórnvölin var sótt um Eurostars styrk ásamt dönsku fyrirtækjunum Danish Technological Institute og BioModics.
Samstarfsleit fyrir Eurostars styrk
Í mars 2014 auglýsti Zymetech eftir samstarfsaðilum í Eurostars verkefni gegnum Enterprise Europe Network (EEN) á Íslandi. Hugmyndin var að þróa plástra sem innihalda ensím (próteasa) unnin úr þorski. Verkefnastjóri EEN, Mjöll Waldorff, fékk símtal frá EEN í Danmörku en þar voru tvö sérhæfð fyrirtæki sem sóttust eftir að sækja um styrkinn með Zymetech.
Fyrirtækin þrjú fóru í að skrifa umsókn með einungis viku í skilafrest, en það sýnir hversu mikla trú þau höfðu á þessari hugmynd. Því miður fékk verkefnið ekki styrk í fyrstu tilraun en samstarfsaðilarnir unnu áfram með hugmyndina og þróuðu proof-of-concept áður en farið var í að skrifa nýja Eurostars umsókn sem fékk styrk.
Upphafið að „Hybrizyme“
Haustið 2015 voru öll formsatriði komin á hreint þannig að þriggja ára verkefnið „Hybrizyme“ hófst. Ensímin (próteasar) úr kaldvatns fiski eins og þorski, eru notuð í verkefninu, þessi ensím henta sérlega vel til meðhöndlunar á til dæmis langvarandi sárum. Í verkefninu eru ensím hjúpuð í kísil-hydrogel netju (IPN – Interpenetrating Polymer Networks), sem hægt er að nota til sáraumbúða. IPN er samsett efni sem er að hluta til vatnssækið hlaup og að hluta til kísill á föstu formi.
Verkefnið miðar að því að þróa nýja, örugga, skilvirka, hagkvæma og því mjög samkeppnishæfa vöru. Nú þegar hafa stór alþjóðleg fyrirtæki sem vinna með sáraumbúðir og lausnir á þessu sviði sýnt áhuga á því að bjóða upp á þessa vöru í þeirra vöruútboði.
Um Zymetech
Zymetech er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í rannsóknum á ensímum unnum úr sjávarlífverum. Tækni fyrirtækisins við að þróa og framleiða samsetningar sem innihalda sjávarunnin ensím er kölluð Penzyme® tækni og er kjarninn í hugverkarétti fyrirtækisins.
Zymetech sérhæfir sig í vöruþróun Ensímtækna með notkun sjávar ensíma í sérstökum blöndum bæði til notkunar í lækningatækjum og húðvörum. Ensím eru náttúrulegir hvatar sem hraða á líffræðilegum ferlum og hafa verið notuð í læknisfræði og vísindum í meira en öld.
Nánari upplýsingar um Zymetech, www.zymetech.com