Árið 2024 eru 30 ár síðan að samningur Evrópska efnahagssvæðisins (EES) var undirritaður og veitti Íslandi meðal annars aðgang að innri markaði Evrópusambandsins og aukin tækifæri til samstarfs í Evrópu. Í tilefni af þeim tímamótum bjóða Rannís, utanríkisráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og sendinefnd ESB á Íslandi til tveggja viðburða miðvikudaginn 8. maí. annars vegar málþingið: EES í 30 ár – ávinningur, tækifæri, áskoranir og hins vegar Uppskeruhátíð Evrópuverkefna: Evrópusamvinna í 30 ár.
10:00 – 12:00 Málþing – Grand Hótel
Á málþinginu verður sjónum beint að þátttöku Íslands í innri markaði Evrópu og evrópskum samstarfsáætlunum, og rætt hvaða áskoranir og tækifæri framtíðin ber í skauti sér.
14:00 – 18:00 Uppskeruhátíð Evrópuverkefna – Kolaportið
Öll velkomin á sérstaka uppskeruhátíð þar sem Evrópusamvinnu verður fagnað en Íslendingar hafa verið afkastamiklir þátttakendur í evrópskum samstarfsáætlunum síðastliðin 30 ár.
Á hátíðinni verður fagnað árangri undanfarinna ára þar sem gestir geta kynnt sér fjölmörg verkefni sem hafa fengið styrki úr áætlunum ESB. Verkefnin koma alls staðar að úr samfélaginu, enda hafa samstarfsáætlanir ESB styrkt íslenska aðila á sviði menntamála, kvikmyndagerðar, æskulýðsmála, rannsókna, nýsköpunar, almannavarna og fleiri sviðum.
Öll velkomin,